Upplýsingar um réttarstöðu launafólks vegna rekstarstöðvunar Wow

Nú þegar WOW air hefur hætt starfsemi er ljóst að töluverður fjöldi fólks, sem bæði starfaði fyrir flugfélagið beint og í afleiddri starfsemi, mun missa vinnuna. Það eru mikil ótíðindi sem ber að harma. 
Margir félagsmenn VSFK eru í þessum hópi. Þegar fólk verður fyrir slíku áfalli sem atvinnumissir svo sannarlega er er gott að vita að stéttarfélagið er til staðar.

Við hvetjum alla þá sem missa vinnuna vegna rekstrarstöðvunar WOW air til að snúa sér til skrifstofu félagsins. Við munum liðsinna og veita ráðgjöf um næstu skref.

Upplýsingar um réttarstöðu launafólks vegna rekstrarstöðvunar WOW air og yfirvofandi gjaldþrots

- Einstaklingar geta sótt um atvinnuleysisbætur og eru þeir hvattir til að gera það sem fyrst þar sem bætur eru greiddar frá þeim degi sem umsókn berst. Greiddar atvinnuleysisbætur og launatekjur á uppsagnarfresti koma til frádráttar greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa.

- Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu vangoldinna launa þrjá síðustu starfsmánuði fyrir gjaldþrotaúrskurð. Jafnframt ábyrgist sjóðurinn launagreiðslur vegna samningsbundins uppsagnarfrests í allt að þrjá mánuði.

- Hámarksgreiðslur úr sjóðnum eru kr. 633.000 vegna vinnulauna fyrir hvern mánuð.

- Ábyrgðasjóður launa ábyrgist vangreidd lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir rekstrarstöðvun.

- Vangreidd orlofslaun njóta ábyrgðar sjóðsins en hámarksábyrgð er kr. 1.014.000-

- Ábyrgðasjóður launa greiðir út þegar skiptastjóri hefur tekið afstöðu til lýstra krafna í þrotabú. En ætla má að slík afgreiðsla geti tekið 6-12 mánuði. Eins og áður segir þá geta strafsmenn WOW sótt um atvinnuleysisbætur sem koma svo til frádráttar greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa. 

- Grunnatvinnuleysisbætur eru kr. 279.720 á mánuði m.v. 100% starfshlutfall en umsækjandi getur þó átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði sem eru að hámarki kr. 440.970 á mánuði. Tekið skal þó fram að í öllum tilvikum eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar fyrstu 2 vikurnar áður en tekjutengingin tekur við.

 

Heimild: tekið af heimasíðu ASÍ

 

Kjaramál

Kjaramál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni hvers stéttarfélags. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis er aðili að allmörgum kjarasamningum.

Orlofsmál

Orlofsárið er tímabilið frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Samkvæmt lögunum, skal veita orlof í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september, nema um annað sé samið.

Umsóknir og eyðublöð

Hér er hægt að nálgast eyðublöð til að sækja um bætur úr sjúkrasjóði, fræðslusjóðum, orlofsaðstöðu og önnur eyðublöð sem tengjast starfsemi félagsins.