Ályktun formannafundar SGS 10. desember 2024
Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar starfsfólk í veitingageiranum við meintu „stéttarfélagi“ sem stofnað var nýverið og ber heitið Virðing. Virðing ber öll merki þess að vera gervi „stéttarfélag“, stofnað af hálfu atvinnurekenda í veitingageiranum, stendur utan heildarsamtaka launafólks og hefur gert gervikjarasamning sem er ekki í nokkru samræmi við þá lögmætu samninga sem eru í gildi í veitingageiranum.
Þau kjör sem Virðing býður félagsfólki sínu eru ekki í samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum. Þvert á móti felur kjarasamningur Virðingar við SVEIT (Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði) í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks og má sem dæmi nefna:
- Dagvinna er greidd á virkum dögum til kl. 20:00 (til kl. 17:00 hjá SGS)
- Vaktaálag á virkum kvöldum eftir kl. 20 er 31% (33% álag eftir kl. 17:00 hjá SGS)
- Dagvinna á laugardögum til kl. 16:00 (45% álag allan daginn hjá SGS)
- 31% álag á sunnudögum (45% álag hjá SGS)
- Ekkert stórhátíðarkaup
- Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert
- Heimilt að gera breytingar á starfshlutfalli með viku fyrirvara (uppsagnarfrestur gildir hjá SGS)
- Réttur barnshafandi kvenna er skertur.
- Lakari veikindaréttur starfsfólks og vegna barna
- Lakari orlofsréttur
- Lakari uppsagnarfrestur
- Ekkert um sérstaka sjóði og greiðslur í þá
- Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna á að gegna starfi sínu.