Samninganefnd Flóafélaganna

Sáttatillaga ríkissáttasemjara í atkvæðagreiðslu

Á fjölmennum fundi samninganefndar Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar í Hafnarfirði og VSFK í Keflavík í gærkvöldi samþykkti nefndin með nær einróma niðurstöðu að senda nýja sáttatillögu ríkissáttasemjara  sem hann lagði fram síðdegis í gær til afgreiðslu félagsmanna á almennum markaði. Samningurinn er afturvirkur frá og með 1. febrúar 2014. Jafnframt  felur hann í sér eingreiðslu upp á 14.600 kr. auk hækkana á orlofs- og desemberuppbótum samtals um 32.300.-kr.


Mikið þrátefli hefur ríkt í samningamálum á almennum markaði eftir að um helmingur félaganna innan ASÍ felldi kjarasamning í atkvæðagreiðslunni sem tilkynnt var þann 22. janúar sl. Atvinnurekendur hafa lengst af haldið sig við sama kostnaðarramma  og sömu launatölur þar til að tillaga kom fram í vikunni um eingreiðslu inn í samninginn auk hækkana á orlofs- og desemberuppbót auk þess sem samningstími er lengdur til 28. febrúar 2015.

Í gær, fimmtudag, lagði ríkissáttasemjari fram sáttatillögu, svokallaða innanhússtillögu til þeirra félaga sem felldu samninginn og höfðu í gærkvöldi flest þeirra þegar samþykkt að senda samninginn í atkvæðagreiðslu en Flóafélögin eru með mjög fjölmenna samninganefnd sem eins og fyrr segir var kölluð saman í gærkvöldi til að fjalla um sáttatilboðið og taka afstöðu til þess hvort ætti að senda það í atkvæðagreiðslu. Það var nær einróma niðurstaða að halda áfram á sömu forsendum og einróma samþykkt að senda samninginn þannig breyttan í atkvæðagreiðslu.

Samningurinn er afturvirkur og gildir hann frá 1. febrúar 2014. Jafnframt kemur sérstök eingreiðsla fyrir janúarmánuð miðað við starfshlutfall kr. 14.600.-

Desember og orlofsuppbætur hækka samtals um 32.300.- kr. frá síðast gildandi kjarasamningi. Desemberuppbót miðað við fullt starf verður á árinu 2014  kr. 73.600.- Orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 miðað við fullt starf verður á árinu 2014  kr. 39.500.-

Ekki hefur komið fram ennþá með óyggjandi hætti hvort stjórnvöld gefa út yfirlýsingu um aðgerðir í útgjöldum vegna heilbrigðismála nánar tiltekið í gjaldskrám vegna læknaþjónustu  og þjónustu á heilsugæslustöðvum. Líkur voru taldar á því í gærkvöldi eftir viðræður við ráðherra.

Þegar er hafin vinna við undirbúning atkvæðagreiðslu Flóafélaganna og verða atkvæðaseðlar sendir út eftir helgi  en tilkynna skal niðurstöðu í atkvæðagreiðslu Flóans fyrir kl. 16.00 föstudaginn 7. mars nk.

Hér er hægt að nálgast undirritaða sáttatillögu.

Kjaramál

Kjaramál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni hvers stéttarfélags. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis er aðili að allmörgum kjarasamningum.

Orlofsmál

Orlofsárið er tímabilið frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Samkvæmt lögunum, skal veita orlof í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september, nema um annað sé samið.

Umsóknir og eyðublöð

Hér er hægt að nálgast eyðublöð til að sækja um bætur úr sjúkrasjóði, fræðslusjóðum, orlofsaðstöðu og önnur eyðublöð sem tengjast starfsemi félagsins.