Saga VSFK

Rúmlega 80 ára starf að baki


Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis var stofnað árið 1932. Félagið gætir hagsmuna verkafólks og sjómanna í Garði, Reykjanesbæ og Vogum. VSFK á aðild bæði að Starfsgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandinu. Í gegnum aðildina að þessum landssamböndum, er félagið eitt af aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.


Aðdragandinn og félagsstofnunin
Í Keflavík höfðu verkamenn stofnað félag árið 1931, en höfðu verið neyddir til að leggja það af. Atvinnurekendur fylgdust náið með því hverjir mættu á fundi og refsuðu þeim sem sýndu tilburði í slíka veru, einkum með því að reka þá úr vinnu. Í stjórn þessa félags, Verkamannafélags Keflavíkur, voru kjörnir þeir Axel Björnsson, formaður, Hannes Jónsson, Kristinn Jónsson, Valdimar Guðjónsson og Þorbergur Sigurjónsson. Atvinnurekendur neituðu þegar að viðurkenna félagið sem samningsaðila. Samstaða þeirra var mikil og öflug og öllum brögðum var beitt – jafnvel ofbeldi.

Aðfararnótt 20. janúar 1932 var ráðist inn í hús í Keflavík, þar sem formaður félagsins, Axel Björnsson, var gestkomandi. Hann var tekinn höndum og fluttur nauðugur á vélbáti til Reykjavíkur. Honum var hótað öllu illu ef hann léti sjá sig aftur Keflavík. Skömmu síðar fengu atvinnurekendur hreppsnefndina til að koma saman og þvinga stjórn félagsins til að boða til félagsfundar, þar voru félagsmenn kúgaðir til að leggja félagið niður formlega. Einungis einn fundarmanna treysti sér til að berjast gegn ofureflinu og greiða atkvæði á móti.

Það þurfti því mikinn kjark og áræðni til að stofna verkalýðsfélag á þessum árum. Ýmsir úr hópnum voru ekki reiðubúnir til að láta við svo búið standa og voru staðráðnir í að mynda á ný með sér félagsskap. Þann 28. desember árið1932 komu 19 verkamenn saman til fundar í samkomuhúsinu Skildi, með það fyrir augum að stofna verkalýðsfélag. Fundurinn var langur og strangur og menn voru ekki á einu máli um hvert formið skyldi vera. Sumir töldu að endurvekja ætti gamla félagið, en aðrir voru þeirrar skoðunar að byrja ætti frá grunni. Að lokum var eftirfarandi tillaga frá Arinbirni Þorvarðarsyni samþykkt: 


„Fundurinn samþykkir að stofnað verði nýtt félag er heiti Verkamannafélag Keflavíkur“

Var þessi tillaga samþykkt eftir langar umræður eins og segir í fyrstu fundargerðarbók félagsins. Í framhaldi af því var samþykkt að boða til framhaldsstofnfundar, en það var gert 16. janúar 1933. Þá voru áskrifendurnir orðnir 41. Fyrstu stjórn skipuðu þeir Guðni Guðleifsson formaður, Guðmundur J. Magnússon, Guðmundur Pálsson, Danival Danivalsson og Arinbjörn Þorvaðarson.

Tilgangur félagsins var að semja um kaup og kjör landverkafólks og sjómanna.  Um haustið 1933 höfðu allir sem höfðu vinnu skrifað undir kauptaxta félagsins. Þar sagði að greiða skyldi 1 krónu á klukkustund í almennri verkamannavinnu en 90 aura í reitarvinnu. Kvennakaup var miklu lægra en þetta. Dagvinna taldist vera frá klukkan sjö að morgni og til klukkan sjö að kvöldi, eftirvinna frá kl. sjö að kvöldi til til tíu og næturvinna til sjö morguninn eftir.

Félagið gerði auk þess einn fyrsta samninginn sem gerður var við erlendan atvinnurekanda. Þann 17. júlí 1934 var gerður samningur milli VSFK og N. Steindal en hann var norskur verktaki sem vann við smíði hafskipabryggjunnar og steingarðs fyrir Óskar Halldórsson í Vatnsnesvík á árunum 1932 til 1935. Hafði hann um 30 vana menn í bryggjusmíðinni með sér frá Noregi. Samingur þessi var talinn hafa markað tímamót í verkalýðsbaráttunni hér syðra, þar sem VSFK stóð þá enn fyrir utan ASÍ..
Snemma var reynt að ná samningum við útgerðarmenn fyrir sjómenn og landmenn er unnu við bátana, en það tókst þó ekki fyrr en árið 1937.  Þá fyrst hafði félagið náð varanlegri fótfestu, viðurkennt af öllum atvinnurekendum.


Sameiningar á svæðinu
Þó svo félögum í VSFK þyki vænt um félagið sitt, hefur það ekki verið markmið í sjálfu sér að viðhalda því sem starfseiningu. Þannig hefur alltaf verið horft til þess hvort hagsmunum félagsmanna verði betur fyrir komið með nánu samstarfi eða sameiningu við önnur félög. Alls hafa fimm verkalýðsfélög sameinast VSFK. Í júlí 1974 sameinuðust Verkalýðsfélag Hafnahrepps og Verkalýðsfélag Vatnsleysustrandarhrepps félaginu. Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur og VSFK sameinuðust árið 1989 og þann 1. janúar 1998 sameinuðust VSFK og Verkalýðs- og sjómannafélag Gerðahrepps. Að lokum sameinaðist Bifreiðafélagið Keilir VSFK þann 5. febrúar 1999.


Félagið á í samstarfi við ýmsa aðila í tengslum við einstök viðfangsefni. Auk þess starfar félagið náið með öðrum verkalýðsfélögum, innan Starfsgreinasambands Íslands og Sjómannasambandsins. Í gegnum þessi landssambönd á félagið aðild að Alþýðusambandi Íslands.


Þessu til viðbótar hefur félagið á undanförnum árum unnið náið með Eflingu í Reykjavík og Hlíf í Hafnarfirði í gegnum svokallað Flóabandalag.  Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis er stöðugt opið fyrir möguleikum á frekari sameiningum og samstarfi.


Sömu grundvallarsjónarmið – breyttar aðferðir
Í gegnum tíðina hafa orðið ýmsar breytingar á starfsháttum verkalýðsfélaga og viðhorfum til þess með hvaða hætti best verði unnið að hagsmunum félagsmannanna. Á fyrstu árum félagsins var ekkert því óviðkomandi. Meðal verkefna sem tekin voru fyrir var að bjóða fram lista til hreppsnefndar. Félagið fékk engan mann kjörin í fyrstu tilraun, árið 1934, en árið 1938 fékk félagið tvo menn kjörna, þá Ragnar Guðleifsson þáverandi formann félagsins og Danival Danivalsson. Á félagsfundum þessa tíma var fjallað um margbreytileg málefni, sem tæpast geta talist verkalýðsmál, en tengjast þó óumdeilanlega hagsmunum launafólks í víðum skilningi. Þar má nefna málefni sem tengjast byggingu sjúkrahúss, verkamannaskýli, bókasafn, löggæslu. Árið 1935 keypti félagið einn hektara lands, sem var skipt í 60 jafnstóra reiti, sem síðan voru leigðir félagsmönnum til matjurtaræktar. Þessi starfsemi stóð í næstum tvo áratugi, eða allt þar til byggt var á svæðinu.


VSFK hafði forgöngu um stofnun Byggingafélags verkamanna árið 1942 og einnig um stofnun sjúkrasamlags árið 1943. Árið 1935 stofnaði félagið pöntunarfélag sem síðar varð KRON og enn seinna Kaupfélag Suðurnesja. Félagið stóð að stofnun Félagsbíós. Saga þess hófst 1936, þegar verkamenn úr Keflavík og Njarðvík byggðu Verkó eins og það var nefnt í þá daga. Lífeyrissjóður Suðurnesja var stofnaður 1970.

Helstu baráttumál dagsins í dag eru líkt og þegar félagið var stofnað – að tryggja og bæta kjör og réttindi launafólks. Verkefni dagsins snúast ekki síst um atvinnumál á svæðinu, orlofsmál, fræðslumál félagsmanna og sjúkra- og slysatryggingar, auk hefðbundinnar kjarabaráttu. Ekkert viðfangsefni sem snertir kjör og réttindi launafólks er félaginu óviðkomandi.

Í meira en þrjá síðastliðna áratugi hefur félagið haft höfuðstöðvar sínar að Hafnargötu 30, eða allt þar til í maí 2009, þegar félagið flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði að Krossmóa 4.

Orlofs og desemberuppbót

Orlofsuppbót er eingreiðsla sem atvinnurekendum ber samkvæmt kjarasamningi að greiða starfsmönnum sínum ár hvert í tengslum við orlofstöku þeirra.

Kjaramál

Kjaramál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni hvers stéttarfélags. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis er aðili að allmörgum kjarasamningum.

Orlofsmál

Orlofsárið er tímabilið frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Samkvæmt lögunum, skal veita orlof í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september, nema um annað sé samið.